Fréttir á vefsíðunni

Farðu á árangursríkt stefnumót í Danmörku!

Nýjasta hugmynd Workindenmark er kölluð „Company Dating“ og beinist aðallega að evrópskum námsmönnum í dönskum háskólum.  Til þess að fræðast meira um þetta áttum við samtal við einn af skipuleggjendunum og einn af þátttakendunum í þessu nýstárlega starfsnámsverkefni.
 
Verkefnið miðar að því að veita alþjóðlegum nemendum við danska háskóla tækifæri til þess að öðlast reynslu á dönskum vinnumarkaði. „Í grunninn er Danmörk mjög tengslabyggt samfélag og oft er það svo að maður þarf að þekkja rétta fólkið til þess að fá fyrsta tækifærið. Þetta getur verið erfitt fyrir evrópska námsmenn, svo við ákváðum að veita þeim aðstoð,“ útskýrir Heidi Ås, EURES ráðgjafi hjá Workindenmark. 
 
Þessi „aðstoð“ var i forminu „Company Dating“ en um 150 umsækjendur kepptu um aðeins 10 stöður. Í lok febrúar voru þeir 10 umsækjendur, sem höfðu verið valdir, sendir í vikulangt starfsnám í einu af þátttökufyrirtækjunum. „Starfsnámið var verkefnamiðað, svo fyrirtækin höfðu þegar skipulagt kraftmikil og markviss verkefni fyrir námsmennina til að vinna að,“ undirstrikar Heidi. Markmið verkefnisins var að kynna dönsk fyrirtæki fyrir nemendum sem góðan valkost.
 
Einn af nemendunum, sem tók þátt í verkefninu, var Gergely Tas, ungur ungverskur háskólanemi á framhaldsstigi við viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar (CBS). „Ég vissi ekki hvaða fyrirtæki ég kæmi til með að vinna fyrir en þetta virtist vera frábært tækifæri til þess að öðlast dýrmæta starfsreynslu á meðan náminu stæði,“ segir hann.
 
Gergely vann fyrir danska fyrirtækið Danelec Marine. „Fyrirtækið hafði nýlokið við endurhönnun á vörumerki sínu og ég var beðinn um að búa til talsvert ítarlega sölukynningu fyrir dreifingaraðila,“ segir Gergely. „Vinnan var mikil áskorun en viðráðanleg og ég öðlaðist ómetanlega og hagnýta reynslu í dönsku fyrirtæki,“ útskýrir hann. Fyrirtækið var svo ánægt með frumraun Gergely að honum var boðið starf í kjölfar þessa vikulangs starfsnáms sem aðstoðarmaður samhliða námi.  
 
Þegar á heildina er litið heppnaðist verkefnið „Company Dating“ ákaflega vel - allir nemendur, sem spurðir voru, mátu hugmyndina á bak við verkefnið á jákvæðan hátt – og Heidi bendir á að Workindenmark áætlar að endurtaka leikinn í lok árs 2012 eða 2013. „Þegar allt kemur til alls að þá er vit í því að halda vel menntuðum háskólanemum í Danmörku og mikilvægt skref í þá átt er að aðstoða þá við að kynnast dönskum vinnumarkaði“.
 
Frekari upplýsingar:
 
 
 
Leita að starfi í EURES vinnugagnagrunninum
 
Læra um hvað EURES getur gert fyrir atvinnurekendur

« Til baka