Fréttir á vefsíðunni

Met í fjölda stúdenta sem fá ESB styrki til náms erlendis

Meira en 213 000 evrópskir stúdentar fengu Erasmus styrki til náms eða þjálfunar erlendis háskólaárið 2009/10, samkvæmt tölfræði sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti í júní 2011. Það er 7,4% aukning frá fyrra ári og nýtt met hjá áætluninni.                     
 
Erasmus er þekktasta áætlun Evrópu fyrir frjálst flæði og ein af árangursríkustu stúdentaskiptiáætlunum í heimi. Yfir 2,5 milljónir stúdenta hafa fengið Erasmusstyrk til náms eða þjálfunar erlendis. Og ef eitthvað er að marka núverandi þróun mun ESB ná markmiði sínu árið 2012/13 um að hafa veitt styrki til þriggja milljóna evrópskra stúdenta frá upphafi áætlunarinnar árið 1987.
 
Þrír vinsælustu áfangastaðir stúdenta árið 2009/10 voru Spánn, Frakkland og Bretland. Spánn sendi einnig mestan fjölda nemenda erlendis og komu Frakkland og Þýskaland svo í kjölfarið.
 
Árið 2009/10 var einnig 17,3% aukning frá fyrra ári í að stúdentar færu í starfsþjálfun hjá fyrirtækjum erlendis en 35 000 stúdentar (einn sjötti af heildarfjöldanum) völdu þessa leið. „Erasmus-áætlunin er ein af stórkostlegu árangurssögum Evrópusambandsins Nýjustu tölur tala fyrir sig sjálfar: Erasmus er vinsælli en áður... Að stunda nám eða þjálfun erlendis opnar dyr að persónulegum þroska og atvinnutækifærum, svo það er rétt að sýna metnað þegar kemur að því að fjárfesta í unga fólkinu okkar,” sagði Androulla Vassiliou, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði menntunar, menningar, fjöltyngi og æsku.
 
Erasmus gerir stúdentum á háskólastigi kleift að dvelja í 3 til 12 mánuði í öðru Evrópulandi - annaðhvort við nám eða í starfsnámi hjá fyrirtæki eða annarri stofnun. Allir nemendur við þátttökuháskóla frá einhverju af hinum 33 þátttökulöndum (27 ESB lönd, Króatía, Ísland, Liechtenstein, Noregur, Tyrkland og Sviss frá og með þessu sumri) geta notið góðs af Erasmus áætluninni.
 
Frekari upplýsingar:
 
 
Fræðast frekar um Erasmus áætlunina
 
 
Frekari upplýsingar um atvinnu- og búsetuskilyrði í mismunandi Evrópulöndum á EURES atvinnugáttinni.
 

« Til baka