Fréttir á vefsíðunni

EURES: Alltaf til taks, sama hve fámenn og óvenjuleg starfsgreinin er.

Ionel Mihalache er útlærður glerblásari frá fylkinu Botosani í Rúmeníu og starfaði í fæðingarborg sinni, en þar er helsti atvinnuvegurinn framleiðsla glermuna. Svo illa vildi til að vinnuveitandi hans varð að hætta rekstri á árinu 2007 og stóð hann þá uppi án atvinnu. Vegna þess að glerlist er mjög lítil atvinnugrein í Rúmeníu áleit Ionel að lítið þýddi fyrir hann að leita fyrir sér á heimaslóðum sínum. Hann hafði samband við héraðsskrifstofu vinnumiðlunar hins opinbera og þar var honum sagt að best væri fyrir hann að snúa sér til EURES og leita fyrir sér annarsstaðar í Evrópu.

Hann komst strax í samband við Gabrielu Drobota, en hún er ráðgjafi við héraðsskrifstofu EURES í Botosani. Í Rúmeníu er atvinnuástandið í gleriðnaðinum alveg sérstaklega alvarlegt og því hafa EURES ráðgjafarnir á þeim svæðum þar sem hann er stundaður lagt sig eftir að kynnast greininni sem best til að geta betur aðstoðað gleriðnaðarmenn sem missa vinnuna. ‘Gabriela var alveg sérlega hjálpleg; hún byrjaði á að aðstoða mig við að setja saman ferilsskrá á ensku’, segir Ionel. ‘Ég undraðist hve fagmannleg vinnubrögðin voru hjá henni, hve þolinmóð hún var og hve viss hún var um að ég myndi finna vinnu sem hæfði menntun minni og reynslu,’ bætir hann við. Um þetta segir Gabriela: ‘Ég lagði töluvert á mig til að hjálpa honum að finna vinnu af því að glerblástur er svo óvenjuleg atvinnugrein! En þetta var krefjandi og skemmtilegt viðfangsefni’,

Gabriela kom Ionel í samband við Angelo Colarosa, forstjóra Cose Belle Cose Rare, en það er ítalskt fyrirtæki með aðsetur í San Bartolomeo í Galdo í grennd við Napolí. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu afar vandaðra handunninna muna, þar á meðal úr gleri. Ionel sótti um hjá Cose Belle Cose Rare og hafði heppnina með sér. Hann var ráðinn svo að segja samstundis. Hann fór því fljótlega að láta niður það sem hann ætlaði að hafa með sér til Ítalíu. Hann hafði reyndar búið í landinu áður og þá í nokkur ár við nám í glerblæstri undir handleiðslu ýmissa meistara. Hann hafði oft hugleitt að flytja aftur til Ítalíu því þar er svo mikið af fyrirtækum í gleriðnaði, og nú sá hann sér heldur betur leik á borði.

Ionel segir að hann hafi unað sér vel í þorpinu þar sem hann bjó, það hafi einmitt verið kostur hve lítið það var. Hann hafi kynnst mörgum og eignast nýja ítalska og rúmenska vini. ‘Að komast til Ítalíu var það besta sem gat komið fyrir mig!’ Hann bætir því við að ítölskunámið hafi alls ekki verið erfitt, enda séu Rúmenska og Ítalska náskyld tungumál.

Ionel er nú kominn aftur til Rúmeníu eftir að hafa aflað sér reynslu erlendis. Hann hefur áhuga á að setjast aftur að á Ítalíu og stunda glerlist í norðurhluta landsins. Ekki þarf að efast um að ráðgjafar EURES verði honum innan handar þegar þar að kemur!

« Til baka