Fréttir á vefsíðunni


Gæðameðferð fyrir ungan læknanema

Til að auka þekkingu sína á almennri læknisfræði og fullkomna nám sitt, ákvað hinn 23 ára gamli læknanemi Laura Zanisi að leita að tækifæri erlendis í heilbrigðiskerfi ólíku því sem hún átti að venjast. Laura hafði góða menntun sem leiddi til þess að henni var veittur styrkur til að taka starfi annars staðar í Evrópu sumarið 2009. Styrkur frá háskóla hennar, Háskólinn í Pavia, náði yfir uppihaldskostnað og flug til lands að hennar vali.

Kennari Lauru og ERASMUS (evrópska stúdentaskiptaáætlunin) samræmingaraðilinn fyrir Læknadeild háskólans, Dr. Giovanni Ricevuti, ráðlagði henni með réttu að hafa samband við EURES ráðgjafa sinn, Aurora Scalora. Laura safnaði saman öllum viðeigandi skjölum, svo sem afritum frá háskólanum og meðmælabréfum og sendi til frú Scalora. Þegar þær hittust svo augliti til auglitis var Laura upplýst um öll þau tækifæri sem í boði voru: “Aðstoð Auroru var mjög mikilvæg vegna þess að þær upplýsingar sem hún gaf mér juku þekkingu mína á flæði vinnuafls innan Evrópusambandsins og eins varðandi lífskjör og vinnuaðstæður erlendis.”

Frú Scalora vinnur í samvinnu við Framleiðslu-, launþega-, þjálfunar- og þróunarstofnun Pavia héraðsins (http://www.formalavoro.pv.it/) og er í nánum samskiptum við Háskólann, sérstaklega læknadeildina. Að hennar mati telur frú Scalora að samstarf við virta háskóla leiði oft til “mjög áhugaverðra frumkvæða”. Til dæmis hefur hún að undanförnu tekið þátt í ráðningarferðum fyrir unga ítalska lækna til Bretlands og Danmerkur. “Ég nýt þess að skapa nýjar leiðir fyrir ungt fólk um alla Evrópu til að verða hreyfanlegt, hvort heldur er í gegnum starf eða nám” segir hún.

Í tilfelli Lauru notaði frú Scalora víðtæka reynslu sína til að útvega Lauru tveggja vikna stöðu við River Surgery í Buckhurst Hill í Bretlandi, heilsugæslustöð með u.þ.b. 20 starfsmönnum. Frú Scalora hafði samband við kunningja sinn, Dr. Abayomi McEwen, aðstoðarprófessor við Háskólann í Cambridge, sem aðstoðaði hana við að undirbúa starfsþjálfunina og hýsti meira að segja Lauru á heimili sínu á meðan á starfi hennar stóð. Ferlið í heild sinni var mjög einfalt og Laura sagði að jafnvel í Bretlandi hafi henni liðið eins og heima hjá sér: “Ég mun aldrei gleyma þeim degi þegar Dr. McEwen og fjölskylda hennar fóru með mig að sjá Draum á Jónsmessunótt (A Midsummer Night´s Dream) eftir Shakespeare eftir lautarferð í garði í bænum. Ég var alltaf velkomin og kynntist mjög góðu og vingjarnlegu fólki.”

Dr. McEwen undirbjó ítarlega tímaáætlun svo Laura gæti upplifað sem flestar hliðar í lífi bresks læknis. Í henni fólust kynning á fjölskylduráðgjöf, ónæmisaðgerðum, meðferðum fyrir sykursjúka og asmasjúklinga og rannsóknir á sviði hjartasjúkdómafræði, æxlafræði og barnalækninga. Þar fyrir utan aðstoðaði Laura hjúkrunarkonur í daglegum störfum þeirra, eins og að mæla blóðþrýsting hjá sjúklingum. Hún eyddi heilum degi í lyfjabúðinni, einum degi á hjúkrunarheimili, fylgdist með því hvernig sjúklingar með sjaldgæfa sjúkdóma voru meðhöndlaðir og sótti jafnvel fyrirlestur við Háskólann í Cambridge ásamt öðrum læknanemum.

Laura er þegar á 5. ári af 6 ára námi sínu og hefur því fyrri praktíska reynslu á Ítalíu. Hún hafði ómælt gagn af reynslu sinni í Bretlandi þar sem hún komst sjálf að þeim mismuni sem er á heilbrigðiskerfum landanna tveggja. Jafnvel þó tvær vikur virðist stutt dvöl, hafði Laura nægan tíma til að öðlast dýrmæta reynslu og eins til að bæta enskukunnáttu sína. Í heildina séð naut Laura reynslu sinnar til hins ítrasta. Kannski var það vegna þess hversu vel var tekið á móti henni á River Surgery; kannski var það tileinkun og ákafa EURES ráðgjafans Aurora Scalora að þakka.

« Til baka