Fréttir á vefsíðunni


EURES: Stökkpallur að nýjum starfsframa!

Í júní síðastliðnum ákvað Geoffroi Anciaux, 26 ára viðskiptafræðingur nýútskrifaður frá kaþólska háskólanum í Leuven í Brussel, að hann vildi halda utan til að öðlast starfsreynslu í alþjóðlegu umhverfi.

Geoffroi byrjaði á því að leita í Actiris gagnagrunninum að starfstilboðum sem hentuðu honum. Actiris er opinber atvinnumiðlun í Belgíu sem annast Brussel og nærliggjandi svæði og hefur náin tengsl við EURES. Hjá Actiris var Geoffroi sjálfkrafa vísað til vefsíðu EURES, þar sem hann fékk upplýsingar um hvernig hann ætti að hafa samband við EURES-ráðgjafa sinn, Mélanie Chaineux. „Mélanie var afar hjálpleg, hún bað mig um ferilskrá mína og sendi hana beint til nokkurra alþjóðlegra ráðgjafarfyrirtækja. Eftir það liðu aðeins nokkrir dagar þar til mér var boðið í fyrsta viðtalið”, segir Geoffroi.

Ráðningarferli Geoffrois gekk afar hratt fyrir sig. Innan 10 daga var hann ráðinn af RQA Europe, alþjóðlegu ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í gæða-, hættu- og slysastjórnun á öllum sviðum neytendavarageirans, hvort sem um er að ræða mat- og drykkjarvörur, íhluti í ökutæki, leikföng eða eitthvað annað. RQA Europe nær til meira en 90 landa og býður afar fjölbreytta þjónustu, t.d. þjálfunarnámskeið, slysastjórnun, og greiningu á áhættuþáttum í tengslum við matvælaöryggi, til að hjálpa skjólstæðingum sínum að stjórna innköllun afurða og koma á bestu mögulegu starfsvenjum.

Hjá RQA annast Geoffroi ýmis verkefni sem geta varðað fyrirtækjaþróun eða að hjálpa viðskiptavinum að finna lausnir á ákveðnum vandamálum, og allt þar á milli. Til að ráðleggja skjólstæðingum sínum úr matvælageiranum standa Geoffroi og teymi hans fyrir skoðunum áður en vörur eru sendar, rannsóknum á afurðum, áhættuhermunum og vitundarþjálfun til að skjólstæðingar geti fylgst með nýjustu löggjöf sem gildir um þeirra athafnasvið.

Á þeim 12 mánuðum sem Geoffroi hefur starfað hjá RQA Europe hefur hann sannarleg notið góðs af athafnakrafti og vexti fyrirtækisins og lærir eitthvað nýtt nærri daglega. „Vegna þess hversu hröð umskipti geta orðið í þessu starfi hef ég lært að vinna við afar stranga skilafresti og að skipuleggja tíma minn á skilvirkan hátt. Það eru þau atriði sem nauðsynlegt er að temja sér til að ná árangri í ráðgjafarfyrirtæki”, segir Geoffroi. Þar að auki hefur Geoffroi bætt enskukunnáttu sína heilmikið þar sem hann talar nú tungumálið daglega.

„Starf mitt er afar spennandi. Ég stend alltaf frammi fyrir nýjum áskorunum og það er afar ánægjulegt að geta verið skapandi og fundið nýjar lausnir. RQA hefur einnig tekið miklum breytingum þetta árið þar sem við höfum stækkað allnokkuð við okkur”, segir Geoffroi. Gæða-, hættu- og slysastjórnun er óneitanlega geiri sem fer ört stækkandi og býður upp á fjölda tækifæra til að öðlast nýja kunnáttu.

Auk möguleikanna á því að öðlast reynslu í starfi þá hefur búsetan í Reading, í aðeins nokkurra kílómetra fjarlægð frá London, ýmsa kosti í för með sér. Sem dæmi má nefna að Geoffroi hefur eignast marga nýja vini alls staðar að úr veröldinni þar sem samstarfsfólk hans hefur reynst víðsýnt, hjálplegt og vingjarnlegt.

„Þegar ég kom til Reading gerði ég mér grein fyrir að ég væri nú staddur í annars konar menningu og reyndi einfaldlega að koma fram af opnum hug við að kynnast heimafólki”, segir Geoffroi. Þegar hann saknar heimahaganna eða langar til að heimsækja fjölskyldu sína og gamla vini er einfalt fyrir Geoffroi að stökkva um borð í EuroStar-lestina og ferðast heim til Brussel með hraði.

Að finna fyrsta starfið að útskrift lokinni getur virst yfirþyrmandi. Á þessum tímum þegar erfitt ástand er í efnahagsmálum getur það reynst örðugt fyrir ungt og nýútskrifað fólk með litla starfsreynslu að komast á byrjunarreit á vinnumarkaðinum. Eins og reynsla Geoffrois sýnir þá getur EURES verið afar gagnleg nýútskrifuðu fólki sem leitar tækifæra. Starfsferill Geoffrois hefur óneitanlega reynst afar farsæll. Hann hóf störf með litla reynslu í geiranum og innan árs var honum falin stjórn þriggja manna teymis innan RQA Europe.

Geoffroi hefur haldið sambandi við Mélanie og jafnvel notfært sér þjónustu EURES við að ráða nýtt starfsfólk í teymið sitt hjá RQA. Að sækja um með milligöngu EURES virðist vera besta ráðið sem Geoffroi getur gefið ungu nýútskrifuðu fólki sem leitar að stökkpalli að nýjum starfsframa.

« Til baka