Fréttir á vefsíðunni


Lifað og starfað í paradís

Í grískri goðafræði er Pelion-fjall, sem stendur í suðausturhluta Þessalíu í miðju Grikklands, heimkynni kentáranna sem sagt er frá í fornum sögnum, og sá staður sem hinir fornu guðir völdu til að halda brúðkaup sín og aðra mannfögnuði. Í dag er þar að finna víðfeðma og sendna strönd og hlýjan og bláan sjó, og er svæðið því enn náttúruleg paradís.

Hér var það sem Chroni Papageli opnaði í samstarfi við Aris Kalantzopoulos barinn og veitingastaðinn „Climax” fyrir nærri 17 árum. Veitingastaðurinn fær mestan hluta viðskipta sinna frá innfæddum íbúum staðarins allt árið um kring, en á sumrin er hann einnig afar vinsæll meðal ferðafólks frá löndum á borð við Þýskaland, Austurríki, Bretland, Frakkland og Ítalíu.

Chroni ræður starfsfólk alls staðar að í Evrópu: „Við ráðum einkum erlent starfsfólk víðsvegar að úr Evrópu til að vera betur í stakk búin til að mæta þörfum erlendra viðskiptavina okkar. En það er ekki eina ástæðan – það áhugaverða við erlent starfsfólk okkar er fjölbreytileiki þeirra. Við getum lært svo margt af hvert öðru bara með því að vinna saman.

Við lítum ekki það mikið til þjóðernis fólks þegar við ráðum það. Það er okkur mikilvægara að starfsfólk okkar búi þegar að fyrri reynslu af störfum erlendis, og að það hafi áhuga á því að læra meira um gríska matargerðarlist. Það fer svo eftir kunnáttu þeirra og reynslu hvort við bjóðum þeim að starfa við barinn, að þjóna til borðs eða hjálpa til í eldhúsinu.”

Finnska námsmærin Senni Avikainen var ein þeirra sem starfaði í eldhúsinu í Climax sumarið 2008. Senni talaði ekki grísku og hafði ekki mikla reynslu af hótelstörfum en það skipti ekki miklu máli þar sem allt nýtt starfsfólk fær fulla þjálfun og nær allir á veitingastaðnum tala ensku. Chroni leggur meira upp úr því að umsækjendur séu lærdómsfúsir. „Starfið í Climax hefur sífellt orðið áhugaverðara því það hefur smám saman aukist við ábyrgðina sem mér er falin. Ég hef verið að læra hvernig eigi að matreiða alla þá fjölbreytilegu rétti sem bornir eru fram á veitingastaðnum og það hefur verið dýrmæt reynsla að sjá hvernig rekstur raunverulegs eldhúss á veitingastað fer fram,” segir Senni.

Chroni hefur undanfarinn áratug reitt sig á stuðning Mariu Antoniou, EURES-ráðgjafans í sínu nágrenni, við ráðningarferlið. „Við höfum átt í samstarfi svo lengi að ég man ekki einu sinni hvernig ég komst fyrst í samband við Mariu. Hitt veit ég þó að við erum mjög ánægð með hjálp hennar. Hún þekkir vel til veitingastaðar okkar og veit nákvæmlega að hverju við erum að leita þegar við ráðum fólk. Í hvert skipti sem hún kemur auga á áhugaverða ferilskrá hefur hún samband við okkur samstundis og við sjáum um að koma á viðtali.”

Þar sem flest starfsfólkið býr á vinnustaðnum eða í námunda við hann telur Chroni það einkum mikilvægt að allir kunni vel við sig þar og falli vel inn í starfsliðið, og að tryggt sé að þeim sé séð fyrir öllum nauðsynjum. Í þessu samhengi veitir Maria stuðning hvenær sem hún getur – einkum þegar stjórnsýsluleg atriði eru annars vegar. Oftast gengur allt afar vel, og það var sannarlega reynsla Senni: „Þegar ég gekk til liðs við starfslið Climax fékk ég mikla aðstoð við öll hagnýt atriði. Ég fékk grískt símanúmer, nettengingu og þau skjöl varðandi almannatryggingar sem nauðsynleg voru í tengslum við starfið. Mér þótti vel séð um mig og ég hafði nær allt sem ég þarfnaðist á reiðum höndum.”

Þegar starfstíma Senni hjá Climax var hálfnaður var hún svo ánægð að hún sendi tölvupóst til Mariu til að þakka henni fyrir stuðninginn og deila reynslu sinni af því að lifa og starfa í paradís. Senni er ekki sú eina sem er ánægð með starfsreynslu sína við strendur Eyjahafs, því mikill fjöldi starfsfólks sem ráðið er tímabundið með milligöngu EURES snýr aftur til starfa næsta ár til að bæta grískuna, læra meira um gríska menningu og til að leggja sitt af mörkum í starfsliði Climax. Með sanni má segja að hér sé á ferðinni afar árangursríkt samstarf!

« Til baka