Fréttir á vefsíðunni


Gott er að eiga góða að

Mojca Hostnik er 26 ára og kemur frá Slóveníu. Hún er dæmigerður Evrópubúi því hún dvaldist í Frakklandi um skeið, en býr nú á Írlandi og mun brátt flytjast til Spánar. Það sem gerði henni þetta kleift var aðstoð Framkvæmdastjórnar Evrópu og EURES. Vegna þess að Mojca ferðaðist töluvert á unglingsárum vaknaði hjá henni löngun til að dveljast lengi utanlands. “Erlendis get ég haft mikið gagn af kunnáttu minni, því auk slóvensku tala ég reiprennandi ensku og spönsku, ég er góð í frönsku og kann dálítið í þýsku. Mér standa allar dyr opnar.”

Majca nam hagfræði og er með meistaragráðu í markaðsfræðum. Hún kynntist Jesus, sem svo varð kærastinn hennar, í Frakklandi. Hún var þá við nám á vegum námsmannaskipta Erasmus (metnaðarfyllsta skiptiprógrammi Framkvæmdastjórnar Evrópu á sviði menntunar og lærdóms). Þau ákváðu að næsta skrefið væri að bæta enskukunnáttuna. ¨Jesus talaði enga ensku en ég gat bjargað mér á málinu. Við komumst að þeirri niðurstöðu að enskukunnátta væri okkur nauðsynleg vegna starfsframans og því fórum við að kanna hvað við gætum gert til að bæta hana”.

Móðir Mojcu, Majda Hostnik, er slóvenskur EURES ráðgjafi. Mojca þurfti því ekki að fara langt til að fá svör við spurningum sínum. Majda veitti Mojcu allar nauðsynlegar upplýsingar og hjálp til að láta drauma sína um störf á Írlandi rætast. “Ég er mjög heppin”, segir hún, “mamma er alveg stórkostleg. Allar upplýsingarnar sem hún lét mig fá og allt það sem hún gerði fyrir mig var alveg frábært.”

Með hjálp móður sinnar fór Mojca á netið og leitaði á vefsvæði EURES og fann strax góð störf fyrir hana og Jesus í Rathsallagh House Country Hotel and Golf Club, ekki langt frá Dublin. Umsóknarferlið gekk snurðulaust fyrir sig og það liðu ekki nema tvær vikur þar til þau voru komin til Írlands. Eftir að þau sóttu um var haft umsóknarviðtal við þau í gegnum síma, þau keyptu farmiðana og lögðu af stað.

Mojca vann í hinum viðhafnarmikla veitingasal Rathsallagh House og Jesus var húsvörður til að byrja með, en fór seinna að vinna við veitingarnar með Mojcu. Þau höfðu bæði ánægju af vinnunni og samstarfsfólkið var þeim mjög hjálplegt við alla pappírsvinnuna fyrst eftir að þau komu. En þótt starfsfólkið hjálpaði þeim voru þau samt fegin að geta snúið sér til EURES í sambandi við nokkur atriði er vörðuðu skattinn. “Það er alltaf dálítið flókið að flytja sín mál milli yfirvalda tveggja landa, en móðir mín var búin að útskýra vandlega fyrir mér hvaða gögn ég þyrfti að taka með til Írlands og hún hjálpaði mér meira að segja þegar skattstofunni urðu á mistök sem snertu vinnuveitandann.”

Mojca and Jesus eru mjög hrifin af Írlandi. Þótt þau hafi fyrst aðeins ætlað að dveljast þar í sex mánuði ákváðu þau síðar að framlengja dvölina. Þau búa nú í Dublin og Mojca vinnur sem þjónustufulltrúi fyrir slóvenska markaðinn hjá Sportingbet.com en Jesus starfar sem vélaverkfræðingur. “Við ákváðum að vera hérna áfram vegna þess að launin eru góð, við eigum marga vini, og vegna þess hvernig efnahagsástandið er núna kemur sér vel fyrir okkur að vera í öruggum störfum.”

Þegar fram líða stundir ætla Mojca og Jesus að setjast að á Spáni, en þar eru þau nýbúin að kaupa sér hús. Það má alveg treysta því að þegar þar að kemur muni þau aftur hafa samband við EURES. “EURES hjálpaði okkur að hefja nýtt líf á Írlandi. Það er alls ekki auðvelt að byrja upp á nýtt í öðru landi því maður á enga vini, enga fjölskyldu, og menningarumhverfið er alveg nýtt og framandi. Þá er gott að eiga EURES að! Ég mæli sterklega með EURES fyrir alla sem hyggjast flytjast til annars lands vegna þess að EURES- ráðgjafarnir eru sérlega traustir og áreiðanlegir, og þeir vinna mjög faglega. Við þá sem langar að upplifa eitthvað nýtt segi ég þetta: Látið verða af því, leggið af stað - þið verðið ekki fyrir vonbrigðum”, segir Mojca að lokum.

« Til baka