Fréttir á vefsíðunni


Sumar á Spáni

Roberta Grignolo, sem er tuttugu og átta ára stjórnmálafræðinemi í borginni Torino á Ítalíu, heyrði fyrst um EURES hjá vinnumiðlun háskólans. Hún fékk strax áhuga og sneri sér til næstu vinnumiðlunarstofu í borginni til að athuga málið betur. Hún spurðist fyrir um það í deildinni þar sem EURES ráðgjafarnir vinna, hvort hún gæti ráðið sig í starfsþjálfun í þeirri deild. Eftir umsóknarviðtal þar sem hæfni hennar var metin komst hún að sem nemi. Það var upphafið að árangursríkum tengslum Robertu við EURES.

Störfin sem Róberta tók þátt í reyndust afar fjölbreytt. Hún vann við skráningu lausra starfa og upplýsingamiðlun um starfsemi EURES til vinnuveitenda, vinnuleitenda og annarra markhópa. Auk þess vann hún við skipulagningu EURES viðburða á Ítalíu og veitti upplýsingar um kjör og önnur skilyrði á ítölskum vinnumarkaði. “Þetta var mjög skemmtileg reynsla. EURES nemar koma mikið við sögu í samskiptum vinnuveitenda og þeirra sem leita sér að vinnu og ég veitti báðum þessum hópum mikilvægar upplýsingar, leiðbeiningar og aðstoð við ráðningarferlin,” segir Roberta. “Mér fannst líka sérstaklega gaman að upplifa það að vera í beinum tengslum við svo margt sem var að gerast á vinnustaðnum.”

Vegna þess að Roberta tók þátt í öllum daglegum umsvifum EURES skrifstofunnar kynntist hún mörgu og sá að hún gæti sem hægast notað sér vinnumiðlun EURES til að finna aðra vinnu. Henni hentaði ekki að vera lengi utan Ítalíu og því kom aðeins sumarráðning til greina. Þá skipti miklu máli fyrir hana að sækja um strax á fyrstu mánuðum ársins.

Hún þurfti ekki að bíða lengi. EURES auglýsti eftir þjónustustúlku í skemmtigarði í borginni Tarragona á Spáni. Sumarstarf á Spáni var kærkomið tækifæri fyrir Robertu, ekki bara vegna þess að þá gæti hún æft sig í spænsku, heldur vegna þess að þá myndi hún kynnast öðrum lifnaðarháttum. Starfskröfurnar voru afar sveigjanlegar – í rauninni var ekki ætlast til neinnar fyrri fagþekkingar. Aðeins var krafist lágmarkskunnáttu í málinu og ekki var krafist lengri ráðningar en fyrir sumarið, og það smellpassaði fyrir Robertu!

“Þeir voru að leita að vinsamlegri, áhugasamri og glaðlyndri manneskju fyrir þennan vinnuhóp á Spáni, og það gekk alveg upp!” sagði Roberta. Hún sendi umsóknina og eftir símtal við skrifstofu PortAventura skemmtigarðsins á Spáni var hún tilbúin til starfa. Um leið og hún kom til Spánar bauð fulltrúi fyrirtækisins hana velkomna og kynnti henni starfið.

Roberta undi sér mjög vel í þessu nýja starfi. “Til að byrja með var það alls ekki auðvelt – spænskukunnátta mín var svo frumstæð að ég skildi ekki alltaf það sem gestirnir voru að segja, en ég gafst ekki upp og erfiðleikarnir hvöttu mig til að bæta mig í spænskunni og efla fagkunnáttuna”. Vinnutíminn var átta stundir á dag, fimm daga vinnunnar. Það þýddi að hún hafði nægan tíma til að kynnast landinu og hinu víðfræga spænska skemmtanalífi. “Og ég kunni svo sannarlega að meta hlýjuna og gestrisnina sem ég mætti á Spáni.”

Sumarstörfin eru mjög eftirsótt af því að þau veita fullkomið tækifæri til að sameina sumarleyfisdvöl í öðru landi og vinnu til að framfleyta sér. Roberta er núna að leita að vinnu svo að hún geti hafið starfsferil sinn á Ítalíu. Hún hefur þetta um málið að segja: ”Ég hefði ekki haft efni á að vera svona lengi í fríi, en ég get þakkað EURES fyrir að ég fann fullkomna lausn á mínum þörfum: skemmtilega vinnu, kaup sem dugði mér til framfæris og nóg af sólskini!” Og hún bætir við: “EURES veitir Evrópubúum mjög gagnlega og fullkomna þjónustu. Vefsvæðið er uppfært jafnt og þétt og það uppfyllir allar þarfir þeirra sem eru að leita að vinnu eða vinnukrafti í Evrópu. Auðvitað er hægt að halda því fram að ég sé dálítið hlutdræg af því að ég vann hjá EURES og hafði sjálf gagn af þjónustunni sem þar er veitt, en svona er það nú bara: Ég veit að EURES stendur fyrir sínu.”

« Til baka