Fréttir á vefsíðunni


Með ofurlítilli aðstoð vina minna…

Ieva Bite, sem er 27 ára og frá Ríga í Lettlandi, hefur búið og starfað í Reykjavík frá því í septemberlok 2008. Meðan leva bjó enn í Ríga vann hún á auglýsingastofu. Hún var eirðarlaus og langaði til að upplifa eitthvað nýtt, bæði á atvinnusviðinu og sem einstaklingur, og auk þess langaði hana að kynnast nýjum slóðum. Hún ræddi málin við kærastann sinn, Martins, og vin þeirra, Janis. Það varð úr að þau ákváðu að leita sér að vinnu erlendis – saman!

“Við vorum ekki með neinar ákveðnar hugmyndir um það hvert við ættum að fara eða hvað við ættum að gera; við vorum alveg opin fyrir uppástungum.” Þá var það einn daginn að leva var að spjalla við nokkra vini sína frá Lithaáen sem höfðu farið til Íslands til að vinna. Þegar þau heyrðu að leva hefði áhuga á að gera eitthvað svipað stungu þau strax upp á Íslandi. “Þau voru mjög spennt fyrir landinu og þeim möguleikum sem þar voru. Við fórum þess vegna strax að athuga málið.”

Vinir levu komu henni í samband við EURES sem þeir höfðu góða reynslu af vegna þess að EURES hafði útvegað þeim vinnuna á Íslandi. leva hafði aldrei heyrt minnst á EURES, en vinir hennar útskýrðu hvernig stofnunin vinnur og hvaða þjónustu hún býður. “EURES breytti öllu fyrir okkur og hjálpaði okkur að láta draumana rætast. Við skráðum okkur á vefsíðu EURES áður en við fórum frá Lettlandi og skoðuðum hvaða störf voru í boði í Reykjavík. Sama daginn og við komum til Íslands hittum við EURES ráðgjafann okkar, Árna Stefánsson.”

Þau leva, Martins og Janis sögðu Árna hvað þau langaði til að gera og hann fór strax að leita að störfum fyrir þau. Að vísu gerði fjármálakreppan strik í reikninginn svo þetta var ekki besti tíminn til að leita sér að vinnu á Íslandi. Samt gekk dæmið upp og nú eru þau öll komin í vinnu. “Það tók okkur einn eða tvo mánuði, en nú erum við öll komin með vinnu og búin að koma okkur fyrir.” Martins og Janis vinna við þrif í íþróttahúsi og leva vinnur í The Indian Mango, sem er indverskur veitingastaður. “Árni lagði sig fram og gerði meira en starf hans krafðist við að hjálpa mér að finna vinnu, og kom meira að segja í kring umsóknarviðtali fyrir mig.”

leva er mjög ánægð með vinnuna sína; hún segir að veitingastaðurinn sé viðkunnanlegur, vinnufélagarnir vinsamlegir og að það sé ekkert vandamál að hún talar ekki íslensku. Matargestirnir eru flestir erlendir ferðamenn og margir Íslendingar tala ensku. “Ég var alveg hissa til að byrja með því næstum allir, sama á hvaða aldri þeir voru, töluðu ensku. Við höfðum öll lært töluvert í ensku í skólanum í Lettlandi, svo að við getum ekki sagt að við höfum lent í neinum tungumálaerfiðleikum hér.”

Hinsvegar hafa þau orðið vör við dálítinn menningarmun: “Meðan við vorum að leita okkur að vinnu kom það stundum fyrir, okkur til undrunar, að fólk svaraði ekki umsóknum eða hringdi ekki þótt það væri búið að lofa því. Við komumst brátt að því, að ef við vildum fá svör, urðum við að hringja sjálf. ”Fyrir utan þetta finnst þeim Reykjavík notaleg og viðkunnanleg borg, og þau hafa eignast marga nýja vini, einkum frá Litháen og Svíþjóð.

Og hvað eru þau að hugsa um að dveljast lengi á Íslandi? “Við erum ekki með það alveg á hreinu, en það verður ekki skemur en eitt ár því það er svo gaman hérna, en það getur vel verið að okkur langi til þess seinna að flytjast til einhvers hlýrri staðar – hér hefur verið snjór frá því í október! Mér finnst við hafa það mjög gott hérna. Við lærum svo margt nýtt og fáum margskonar tækifæri. Ég vinn ennþá “freelance” við textagerð fyrir starfsfélaga í Lettlandi, svo ég hef enn fagleg sambönd við heimalandið.”

« Til baka