Fréttir á vefsíðunni


Sól, sjór og EURES ... öðruvísi sumarfrí fyrir námsmanninn!

Janina Laaksonen fæddist í Turku í Finnlandi en þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gömul hefur hún reynslu af því að búa erlendis. Nú sem stendur býr hún í Lundi í Svíþjóð og nemur hagfræði við háskólann þar. Í sumar ákvað hún að yfirgefa bæði Svíþjóð og Finnland og upplifa þess í stað þriggja mánaða ævintýri í norðanverðu Þýskalandi sem þjónustustúlka á strandstaðnum Grömitz í Slésvík-Holstein.

Ásamt með hagfræðiþekkingunni býr Janina einnig yfir aðdáunarverðri tungumálakunnáttu. Sænska er móðurmál hennar og hún hefur afar gott vald á finnsku, ensku og þýsku. „Mér hefur alltaf þótt skemmtilegt að takast á við ögrandi verkefni og ég vil líka gera það sem kemur mér best. Ég fór til Svíþjóðar í nám vegna þess að námið sem mér stóð til boða þar heillaði mig meira en námið í Finnlandi.“ Og þetta var ekki fyrsta langtímadvöl Janinu í Þýskalandi; eftir gagnfræðaskólann var hún au-pair hjá fjölskyldu í Northeim í Neðra-Saxlandi um eins árs skeið. „Ég hafði virkilega gaman af dvölinni og lærði mikið í þýskunni, svo að þegar ég sá færi á að fara aftur til Þýskalands nú í sumar stökk ég á það.“

Þjónustustarfið sem Janina tók að sér var auglýst í EURES-dálkinum á vefsíðu finnsku vinnumiðlunarinnar og umsóknarferlið var afar einfalt, en Janina þurfti einungis að fylla út umsókn á netinu. Þýski EURES-ráðgjafinn Annette Zellmer sá um að ráða í starfið og um leið og búið var að para hæfileika Janinu saman við tiltekna stöðu fór hún í símaviðtal hjá verðandi vinnuveitendum sínum. Þeim leist greinilega vel á tungumálakunnáttu hennar, drifkraft og sjálfsöryggi, því skömmu síðar fékk hún samninginn í pósti.

„Ég hef alltaf unnið á sumrin til að eiga peninga fyrir árið og þetta starf virtist alveg fullkomið – ég gat unnið mér inn peninga, æft um leið þýskuna og eignast fullt af nýjum vinum því vinnan var á sumarleyfisstað.“ Janina vann í Strandhalle Grömitz og blandaði meðal annars kokteila og bar fram ís og drykki á útibarnum. Hún hafði nóg að gera, vann átta til tíu tíma á dag sex daga vikunnar, og var hæstánægð: „Ég átti alveg frábært sumar. Ég myndi mæla með þessari reynslu við hvern sem er. Þetta er frábært alþjóðlegt umhverfi, ég notaðist bæði við þýskuna og enskuna, og það var svo gaman hjá okkur!“

Að mati Janinu græða allir á þessu samstarfi milli þeirra EURES og vinnuveitandans Stephans Kohler hjá Strandhalle Grömitz. Hún vann sér inn peninga (sérstaklega hjálpaði þar til að húsnæðið skyldi vera innifalið í samningnum), bjó á framandi stað og eignaðist nýja vini, og barinn græddi á áhuga hennar, reynslu og dugnaði.

Þegar sumarleyfinu lýkur snýr Janina sér aftur að bókunum, en næsta sumar hyggst hún enn og aftur halda utan til að vinna og þá kannski til enskumælandi lands. Þrátt fyrir að enn sé ekkert afráðið með framtíðarstarfið er hún harðákveðin í að vinna erlendis, að minnsta kosti í nokkur ár, og í augnablikinu er Þýskaland efst á óskalistanum!

« Til baka