Fréttir á vefsíðunni


Stundum getur lífið verði auðvelt og hnökralaust…

Þegar Thomas Cole, sem er 33 ára gamall, fór í viðtal hjá EURES deild hinnar opinberu vinnumiðlunarskrifstofu Belgíu, gerði hann það með opnum huga. Hann hafði ákveðið að leita hjálpar EURES við að finna starf sem leiðsögumaður eða hópferðastjóri, heima eða erlendis. Auglýsing um starf leiðsögumanns á skemmtiferðabát vakti athygli hans, og hann ákvað að sækja strax um. Fljótlega eftir að hann var búinn að því, ók hann til Hollands til að fara í starfsviðtal. Í ljós kom að þeim sem hann ræddi við hjá fyrirtækinu hafði litist vel á hann. Hann var reiðubúinn að freista gæfunnar erlendis og setti því gúmmístígvélin sín í ferðatöskuna og dreif sig af stað.

‘La Nouvelle Etoile’ flytur allt að átta farþega í senn upp og niður vatnaleiðir Hollands, Belgíu, Þýskalands og Frakklands þar sem komið er við á ýmsum merkum stöðum. Háskólanám Thomasar og fyrri störf gera hann alveg sérlega hæfan fyrir starfið. Hann hefur próf í miðaldasögu og hefur á reiðum höndum svör við hverskonar spurningum um staðina þar sem komið er við. Stundum notar hann tækifærið til að æfa spænsku- og ítölskukunnáttu sína þegar svo vill til að farþegarnir tala þau mál!

Það sem Thomasi finnst svo sérstaklega gott við starfið er það hversu fjölbreytt það er – engir tveir dagar eru eins. Hann fer á fætur við fyrsta hanagal til að sækja morgunverðinn, skipuleggja ferðir og fara í ferðir sem leiðsögumaður, hann færir ferðamönnunum nestið þá daga sem farið er í skoðunarferðir og, þegar það gerist að einhver þeirra gleymir að taka með sér eitthvað sem máli skiptir, er eins líklegt að Thomas skjótist í land og sæki það fyrir hann, ef hann biður vel um það! Áhöfnin á bátnum, sem er fimm manns, er samhent og sér um að allt gangi snurðulaust. Hún dregur dám af því að báturinn siglir til fjögurra landa og er fjölþjóðleg.

Ef Thomas hefði ekki leitað til EURES, hefði hann aldrei séð auglýsinguna: “Ég kann svo sannarlega að meta þá hjálp sem ráðgjafar EURES veittu mér. Það voru engir erfiðleikar í sambandi við flutningana milli Belgíu og Hollands, því það er ekki langt að fara, en ég þurfti að glíma við erfið tryggingamál sem því fylgdu. EURES hjálpaði mér með þau mál svo að nú er ég fulltryggður í Hollandi.”

Brátt líður að því að ráðningartímanum, sem er sjö mánuðir, ljúki, en Thomas getur treyst því að EURES gleymi honum ekki. Þótt hann sé hrifinn af hinum opnu landamærum Evrópulandanna og hve auðvelt það er að ferðast um löndin, eru skattamálin og skriffinskan enn til trafala. Það má telja víst að Thomas leiti til ráðgjafa sinna hjá EURES þegar kemur að því hjá honum að fylla út skattskýrsluna. Þá er gott fyrir hann að njóta tilsagnar kunnáttumanna!

Thomas er mjög ánægður með þessa vinnu sem veitir honum tækifæri til að stunda leiðsögustörf (sem honum líkar vel), til að miðla sagnfræðilegri þekkingu sinni og til að hagnýta málakunnáttu sína. Þegar veturinn nálgast snýr hann aftur til Belgíu, en enginn skyldi verða hissa þótt hann birtist um borð í ‘La Nouvelle Etoile’ með vorinu, til að sigla um ár og skipaskurði Norður-Evrópu.

« Til baka