Fréttir á vefsíðunni


Ekki bara fyrir ungmenni

Decho Simeonov Valchanov er 39 ára vélvirki, upphaflega frá borginni Razgrad í norðaustur Búlgaríu. Saga hans sýnir að liðlega tvítugir eða þrítugir Evrópubúar eru ekki þeir einu sem geta hagnýtt sér hjálp EURES við að finna starf erlendis, heldur býður hún einnig upp á frábær tækifæri fyrir ‘eldri borgara’.

Decho var orðinn óánægður með laun sín og óðfús að öðlast starfsreynslu erlendis þegar hann ákvað í desember 2007 að leita aðstoðar hjá opinberu atvinnuþjónustunni í Búlgaríu. Þótt hann vissi að víðtæk starfsreynsla væri verulegur plús fyrir hann, þá var hann dálítið óöruggur og hræddur um að aldur hans og það að hann talaði bara búlgörsku kynni að takmarka valkosti hans. „Satt best að segja þá hafði ég enga hugmynd um hverjir þeir kynnu að vera og var því eiginlega opinn fyrir öllum möguleikum,” segir Decho. EURES kom til hjálpar!

Hjá opinberu atvinnuþjónustunni var honum bent á að tala við EURES ráðgjafa Elitsa Shenkova sem ræddi við hann um hugsanleg tækifæri og hjálpaði honum að gera upp við sig hvaða land myndi henta honum. Innan stundar fann hún kjörið starf fyrir hann í gagnagrunni EURES yfir atvinnutækifæri: Carrocerias Hnos. Rega, spánskt fyrirtæki í smábænum Alfoz í Galicia-héraðinu á Spáni, var að leita að bifvélavirkja. (Ekki gleyma því að gestir á EURES vefsetrinu geta sjálfir leitað í gagnagrunnum um laus störf og að EURES ráðgjafar í nágrenni þínu eru ætíð reiðubúnir að veita alla þá hjálp sem þú þarft.)

Elitsa aðstoðaði Decho að útbúa ferilskrá og hvatningarbréf og sendi þau til Spánar – og brátt frétti hann að það hafði borið árangur. Decho hafði aldrei farið frá Búlgaríu áður og byrjaði strax að undirbúa sig fyrir nýjan kafla í lífi sínu. „Ég var mjög spenntur að hafa fengið atvinnutilboð á stað sem var alveg nýr fyrir mér,” segir Decho, „sérstaklega þar sem ég gæti starfað áfram á sviði sem mér líkaði mjög vel.”

Við komu hans til smábæjarins Alfoz reyndist atvinnuveitandi Dechos honum einstaklega vel, útvegaði honum litla íbúð og sá um alla nauðsynlega lagalega pappírsvinnu til að hann gæti búið og starfað á Spáni. Í vinnunni fann Decho líka að hann aðlagaðist fljótt og fannst starfið skemmtilegt. Þótt hann talaði enga spænsku til að byrja með, þá komst hann fljótt inn í málið í gegnum samskipti og daglegt spjall við samstarfsfólk sitt.

Decho var mjög ánægður með þjónustuna sem EURES veitti honum og telur víst að öll reynsla hans hafi opnað huga hans gagnvart nýjum möguleikum. Enda þótt Decho hafi orðið að fara frá Spáni eftir aðeins nokkra mánuði vegna fjölskylduvandamála heima í Búlgaríu, þá hefði hann mjög gjarnan viljað vera þar lengur. Reyndar er hann ákveðinn í að fara aftur til Spánar fyrr eða síðar – og ráðgerir að fara beint til EURES og fá aðstoð þeirra aftur.
„Það var frábært að mér leið aldrei eins og ég væri gestur á Spáni,” segir Decho. „Ég tel það hafa ráðið miklu um það hversu mjög ég naut reynslunnar. Það sýndi mér og sannaði að það er aldrei of seint að reyna eitthvað nýtt.”

Vissulega sýnir saga Dechos að fólk á öllum aldri og úr öllum kringumstæðum getur, með smáaðstoð frá EURES, starfað erlendis í fyrsta sinn á ævinni. Kannski er kominn tími fyrir þig að grípa tækifærið?

« Til baka