Fréttir á vefsíðunni


Að velja réttu leiðina

Þráin eftir að upplifa eitthvað nýtt knýr marga sem leita sér að atvinnu erlendis. Það er hins vegar verulega óvenjulegt að enda á sleðahundabýli í Lapplandi. Engu að síður var það raunin með hinn þrítuga Jan Stanek frá Tékklandi, sem ákvað að leggja kennarastarfið til hliðar um stund til að fullnægja ævintýraþorsta sínum.

Jan var reglulegur gestur á heimasíðu EURES og fletti oft upp í gagnabanka EURES, þar sem yfirleitt má finna yfir 1,5 milljón störf innan Evrópu. Haustið 2007 fangaði starf á sleðahundabýli í finnska hluta Lapplands athygli hans. Finnland var eftirlætis land Jans en hann hafði heimsótt landið nokkrum sinnum og alltaf langað að búa þar um tíma. Tækifærið var svo einstakt að Jan sótti um starfið sama dag og það var auglýst á heimasíðunni! Ákafinn hlýtur að hafa talist honum til tekna þar sem hann fékk starfið. Í árslok 2007 lagði hann af stað til borgarinnar Kuusamo í Norður-Finnlandi til að taka að sér árstíðarbundið starf til þriggja mánaða.

Jan uppgötvaði fljótt að hið nýja heimili hans var eitt stærsta og þekktasta sleðahundabýli Finnlands. Verkefnin voru af ýmsum toga. „Ég gætti 120 hunda, gaf þeim að éta og þvoði þeim; ég undirbjó, skipulagði og fór í sleðahundaferðir með ferðafólk, sýndi ferðamönnunum að sjálfsögðu býlið og svaraði spurningum þeirra,” segir Tékkinn okkur. Margir gestanna komu frá frægri íþrótta- og ferðamiðstöð að nafni Ruka, sem býður ferðamönnum meðal annars upp á nokkrar heimsóknir á hundabýlið „hans Jans”, ásamt með löngum sleðaferðum á hinu ísilagða Ylikitka-vatni. „Þannig tókst mér að bæta enskukunnáttu mína innan um ferðafólkið, og ég lærði einfaldar setningar á finnsku.” Eigandi býlisins sá Jan meira að segja fyrir húsnæði.

Starfið var Jan á ýmsan hátt ögrun, og honum finnst hann sterkari manneskja fyrir vikið. Býlið var í 22 km fjarlægð frá næstu verslun og 35 km frá næsta stóra bæ. Enn fremur getur hitastigið í Lapplandi farið niður í -30°C á veturna og Jan vann að mestu leyti utandyra. „Auk þess vann ég mjög mikið – þegar jólavertíðin stóð sem hæst vann ég 12 tíma á dag sökum ferðamannafjöldans. En þetta var frábær upplifun. Launin voru líka mjög há í samanburði við launin sem ég hafði í Tékklandi,” segir Jan.

Jan sneri aftur til Tékklands fyrir tveimur og hálfum mánuði. „Ég er strax farinn að sakna sleðahundabýlisins míns,” viðurkennir hann. „Ég vil endilega fara aftur til útlanda og skoða reglulega EURES-heimasíðuna í leit að áhugaverðu starfi.” EURES mun eflaust sjá Jan fyrir fleiri ævintýrum í framtíðinni!

« Til baka