Fréttir á vefsíðunni


Hestur leitar hestasveins

Kappreiðar hafa alltaf verið stór þáttur í írskri menningu, en með örum vexti írska hagkerfisins síðustu árin hafa þær orðið fýsilegur fjárfestingarkostur. Frábærar fréttir fyrir kappreiðaiðnaðinn – að því undanskildu að hraður vöxtur iðnaðarins skapaði alveg nýtt vandamál: að finna hentugt starfsfólk til að fylla öll nýju störfin.

Í fyrstu fyllti starfsfólk frá Asíu og Úkraínu upp í skörðin. „Samband írska þjálfara kappreiðahesta, Irish Racehorse Trainers Association (IRTA), vann oft með nokkrum Asíulöndum,” segir Tom McEnroe, EURES ráðgjafi á Írlandi sem aðstoðaði kappreiðaiðnaðinn við leit þeirra að velþjálfuðu starfsfólki. „Ástæðan var sú að í þessum löndum voru frábærir þjálfunarskólar og mikið framboð af starfsfólki fyrir iðnaðinn."

Hins vegar varð hagræðið af samstarfi við nálægari aðila sífellt augljósara. Það var ekki aðeins hægt að finna sömu (og auka) gæði þjálfunar innan Evrópusambandsins, heldur gerðu góðar samgöngur milli landa innan Evrópusambandsins það að verkum að aðilar í iðnaðinum áttu hægara með að vakta þá sérstöku þjálfun sem er krafist og að auðvelt var að flytja faglærða þjálfara, starfsfólk og aðbúnað á milli. Því ákvað írski kappreiðaiðnaðurinn að leita uppi samstarfsaðila sem gætu hagnýtt sér þann aðbúnað til þjálfunar sem þegar var hvarvetna fyrir hendi í Evrópu. Iðnaðinum var fyrst vísað til Írsku þjóðarstofnunarinnar á sviði þjálfunar og atvinnumála, Irish National Training and Employment Authority (FÁS), og loks til EURES þar sem Tom McEnroe lét málið til sín taka. Hann hjálpaði til við að finna fimm aðildarríki með hefðbundinn kappreiðaiðnað: Pólland, Slóvakíu, Ungverjaland, Austurríki og Tékkland.

Tilraunaprógramm í Póllandi heppnaðist vel varðandi sumt starfsfólk sem vantaði (eins og t.d. hestasveina), en enn reyndist erfitt að útvega reiðmenn og veðreiðaknapa sem skipta sköpum fyrir iðnaðinn. Þess vegna færðist fókus verkefnisins til Tékklands í maí 2007, og einnig til Slóvakíu í september sama ár.

Nýráðningastjórar frá Sambandi írska þjálfara kappreiðahesta, Irish Racehorse Trainers Association (IRTA) og Sambandi írskra gæðingaræktunarmanna, Irish Thoroughbred Breeders Association (ITBA), ásamt írskum EURES ráðgjöfum, uppgötvuðu sér til ánægju rótgróin menntunar- og þjálfunarkerfi bæði í Tékklandi og Slóvakíu fyrir starfsfólk sem hentaði írska kappreiðaiðnaðinum. Nokkrir framhaldsskólar og þjálfunarstofnanir í þessum löndum lýstu einnig miklum áhuga á samstarfi við EURES í framtíðinni. Af þessu leiðir að fjöldi tiltækra námsplássa mun aukast ef írski kappreiðaiðnaðurinn getur tryggt nægilegt framboð atvinnutækifæra. Auk þess ráðgera framhaldsskólar í Bratislava og Prag að bjóða einnig upp á námskeið í ensku og að skipuleggja tækifæri til starfsnáms á Írlandi fyrir stúdenta á lokaári og gera námið þannig sem mest aðlaðandi. Ennfremur mun Samband írska þjálfara kappreiðahesta, Irish Racehorse Trainers Association (IRTA) og Samband írskra gæðingaræktunarmanna, Irish Thoroughbred Breeders Association (ITBA) útvega skólunum írska hesta til að verðandi hestasveinar geti byrjað að þjálfa sig og venjast þeim jafnvel áður en þeir fara til Írlands.


Nýráðningaverkefni írska kappreiðaiðnaðarins verður brátt kynnt í Ungverjalandi, Austurríki og á nýjan leik í suðurhéruðum Póllands. Hins vegar er enginn vafi á því að góður árangur verkefnisins í framtíðinni er að mestu leyti kominn undir auknu samstarfi við skóla, framhaldsskóla og samtök í jafnvel enn fleiri löndum.

« Til baka