Fréttir á vefsíðunni


Bóhemísk rapsódía: verkafólk setur skínandi gott fordæmi

Minnkandi atvinnuleysi bendir venjulega til „heilbrigðs“ efnahags. Færri atvinnuleitendur á vinnumarkaðnum gerir það hinsvegar erfiðara fyrir fyrirtæki að ráða starfsfólk. Þetta var vissulega vandamálið fyrir Crystalex, stærsta framleiðanda heimilisglervara í Tékklandi og einn af leiðandi framleiðendum Evrópu í iðnaðnum. Til þess að leysa vandamálið ákvað fyrirtækið að fara í samstarf við starfsmenntaskóla, kynna nýjungar í upplýsingatækni til þess að laða að yngri verkamenn og síðast en ekki síst að nota víðtækt net EURES til þess að ráða hæfa erlenda verkamenn.

Bóhemía, vesturhluti Tékklands, býr yfir aldagamalli hefð og góðu orðspori um allan heim fyrir framleiðslu sína á kristal og glervörum. Starfsmenn voru þess vegna stoltir af að vinna fyrir Crystalex, sem var stofnað seint á 7. áratugnum. Hinsvegar fóru störf hjá fyrirtækinu að missa þokka sinn stuttu eftir fall kommúnismans og í kjölfarið á kynnum af frjálsu markaðskerfi varð alvarlegur skortur á vinnafli. Áhrifa þessa breytingatímabils gætir enn þann dag í dag á þessu svæði: „Mikilvægir bílaframleiðendur í iðnaðarborgum Bóhemíu bjóða nú samkeppnishæf starfstækifæri og það dregur úr áhuga ungs fólks á glerframleiðslu,“ segir Ivana Mišáková, EURES-ráðgjafi í Tékklandi.

Það varð enn mikilvægara að tryggja nægt vinnuafl þegar fyrirtækið byggði upp nýja framleiðslulínu. „Við bjuggum við skort á verkafólki og ákváðum að ávarpa námsmenn, skóla og vinnumiðlanir beint til þess að markaðssetja fyrirtækið okkar betur. Hefðbundnar ráðningaleiðir reyndust vera árangurslausar,“ útsskýrir mannauðsstjórinn Alena Štemberová.

Á þessum tímapunkti bað fyrirtækið líka um ráðgjöf og stuðning frá EURES-ráðgjöfum á staðnum, sem dreifðu samstundis upplýsingum á net sitt um alla Evrópu. EURES beindi ráðningarherferð sinni að þeim svæðum í Evrópu þar sem glerverksmiðjum hafði verið lokað og atvinnuleysi var hátt. Atvinnuleitendum um alla álfuna var boðin vinna á atvinnukaupstefnum og í gegnum EURES vefsíðuna. Úr varð að 24 pólskir verkamenn, 11 rúmenskir og 9 slóvakar vinna nú hjá Crystalex og nokkrir Búlgarar og Úkraínumenn bætast brátt í hópinn. Atvinnuöryggi í umhverfi þar sem þeir geta notað handverksaðferðir og lært meira um framleiðslu með upplýsingatækni heillar atvinnuleitendur. Sjálfvirk framleiðsla er orðin nauðsynleg fyrir árangur fyrirtækisins í framtíðinni og útskriftarnemar í tengdum fræðigreinum eiga því frábær tækifæri á starfsframa.

Áreiðanleg EURES-ráðgjöf og leiðsögn hefur á sama tíma varðveitt og endurlífgað Crystalex, sem er staðsett á svæði sem hefur verið í fylkingarbroddi í glergerð síðan á 13. öld. Crystalex mælir eindregið með að aðrir atvinnurekendur fari að þeirra dæmi þar sem þeir hafa fundið starfsfólk til þess að leiða fyrirtækið áfram. „Núverandi skortur á vinnuafli þýðir að tékkneskir atvinnurekendur þurfa að leita út fyrir landsteinana að starfsfólki. Því fyrr sem við tökumst á við þetta mál, því betra,“ segir Alena Štemberová. Á meðan getur starfsfólk Crystalex lyft glösum fyrir öðrum farsælum 40 árum.

« Til baka