Fréttir á vefsíðunni


Maður er aldrei of ungur til þess að njóta velgengni

Í mörgum löndum Evrópu getur læknanám tekið allt að 10 ár þangað til læknar fá sérfræðingsleyfi. Læknakandídatar þurfa oft að bíða í mörg ár áður en þeir tryggja sér rannsóknastöðu á sjúkrahúsi og biðin er jafnvel enn lengri eftir stjórnunarverkefnum. Slíkar ábyrgðarstöður eru í auknum mæli fjarlægur draumur fyrir flesta lækna og oft er ekki hægt að gera ráð fyrir góðum launum fyrr en eftir fimmtugt.
 
Viviönu Porcari, afburðanemanda í Taugasjúkdómafræðideild barna og unglinga í Háskólanum í Palermo, langaði alltaf til þess að öðlast beina reynslu á sviði geðlækninga og vinna við rannsóknir. Viviana fullnægði metnaðargirni sinni með því að læra geðlæknisfræði í eitt ár í Boston University School of Medicine (BUSM) í Bandaríkjunum. Þar vann hún einnig á bráðamóttöku. Í Bandaríkjunum fékk Viviana innsýn í bandaríska staðla og verklag í geðmeðferðum. Hún naut þess að starfa í fjölmenningarumhverfi og var ákveðin í því að standast alþjóðlegar kröfur í vinnu sinni.
 
Þegar Viviana kom aftur til Ítalíu segist hún hafa uppgötvað „hlýjuna í „gömlu heimsálfunni“, en einnig óþægindin tengd hægum framgangi í læknastarfi“. Hún byrjaði að leita að atvinnutækifærum erlendis vegna þess að hún vildi áköf takast á við nýjar áskoranir í starfi, en í þetta skiptið leitaði hún innan Evrópu. Aðeins sex mánuðum áður en sérfræðinám hennar í Palermo átti að klárast komst hún á snoðir um ráðningaherferð sem var skipulögð af EURES Pavia, breska sendiráðinu í Róm og South Essex Partnership NHS Foundation Trust for Italian Psychiatrist. Án þess að hika hafði Viviana samband við Auroru Scalora, EURES ráðgjafa og einn af skipuleggjendum ráðningaherferðarinnar. Aurora hjálpaði Viviönu að undirstrika mikla hæfni hennar í ferilskrá sinni og að finna viðeigandi snið fyrir ferilskrána. Aurora undirbjó Viviönu líka fyrir starfsviðtölin sem hún þurfti að fara í.
 
Fyrsta viðtal hennar á ensku gekk vel, en NHS Foundation Trust greiddi allan kostnað við tveggja daga heimsókn hennar á sjúkrahúsið í Southend-on-Sea í Essex í Englandi. Þar skoðaði Viviana aðstæður og hitti lykilstarfsmenn sem veita geðlæknisþjónustu fyrir sýsluna. „Fagmennska sjúkrahússtarfsmannanna var mér að skapi sem og nútímaleg lækningatækni sem þeir notuðu“, sagði Viviana. „Mér sýndist NHS Foundation Trust vera ákjósanlegt vinnuumhverfi og ég vissi þá að ég myndi þurfa að leggja hart að mér til þess að ná prófunum og standa mig vel í lokaviðtalinu til þess að komast þangað.“
 
Næstu sex mánuðina hélt Viviana sambandi við Auroru Scalora sem hafði kynnt hana fyrir valferlinu og starfsemi NHS Foundation Trust. Síðasta hindrunin í þessu ferli var lokaviðtalstörn þar sem Viviana hafði 30 mínútur til þess að setja fram spurningar og koma á framfæri þekkingu sinni sem hún hafði öðlast í ellefu ára námi sínu. Þrautsegla hennar, þrotlaus vinna, hugrekki og bjartsýni borgaði sig að lokum því nokkrum vikum seinna fékk hún þær gleðifregnir að hún hafði fengið starfið.
 
„Ég er virkilega ánægð með vinnuna mína á sjúkrahúsinu í Southend-on-Sea í Essex. Ég tek þátt í öðru verkefni um áfallastreituröskun og bráðlega mun ég sækja virt stjórnunarnámskeið sem prófessorar í Yale háskólanum halda“, segir Viviana eftir að hafa verið eitt og hálft ár í Englandi. „Þökk sé EURES ráðgjafanum Auroru Scalora, breska sendiráðinu í Róm og starfsfólki NHS Foundation Trust hefur draumur minn um starfsframa ræst. Ég á mér enn fjölmörg metnaðarmál og í dag hef ég meira sjálfstraust til þess að fullnægja metnaði mínum. Lífið mitt er yndislegt núna, ég á mína eigin íbúð, tvo ketti og marga trausta vini. Stundum sakna ég minnar fallegu Ítalíu, en ég er ánægð með það að hafa ekki þurft að fara frá Evrópu til þess að öðlast starfsframa og sjá drauma mína verða að veruleika.“

« Til baka