Fréttir á vefsíðunni


Beint flug frá Sikiley til Evrópu

Sikiley er hérað í Ítalíu og eitt af 10 svæðum í Evrópu þar sem atvinnuleysi er hvað mest. Ungu fólki á þessum svæðum gengur illa að finna störf við sitt hæfi. Ástandið er gjarnan illbærilegt fyrir unga sikileyinga sem margir eru vel menntaðir, kunna erlend tungumál og eru reiðubúnir að leggja hart að sér.
 
 
EURES ráðgjafarnir í Palermo, héraðshöfuðborginni, þekkja vel hinn erfiða vinnumarkað á Sikiley. Þeir reyna að svara þörfum unga fólksins með því að koma sér upp traustum samböndum við frægar gistihúsa- og baðstrandakeðjur eins og t.d. Sol Melià sem er spænskt fyrirtæki, og við stór fyrirtæki í skemmtanageiranum, eins og t.d. Euro Disney.
 
 
Sol Meliá, sem rekur 350 hótel í 30 löndum, er eitt af helstu fyrirtækjum Spánar bæði í hótelrekstri í borgum og á sumardvalarstöðum. Viðskiptavinirnir eru af ýmsu þjóðerni og því er reynt að ráða fólk frá sem flestum löndum. Þetta á sérstaklega við þegar skemmtikraftar eru ráðnir til sumardvalarstaða. Þeir sem ráðnir eru fá þriggja vikna ítarlega þjálfum þar sem þeir kynnast bæði ‘leyndarmáli’ starfsins og áherslum fyrirtækisins.
 
 
EURES fólkið í Palermo hefur langa reynslu af því að koma ungu fólki í atvinnuleit á framfæri við Sol Meliá. Venjulega fer þetta fólk frá Sikiley með allskonar áhyggjur og efasemdir, en uppgötvar fljótlega nýjan heim og nýjar hliðar á starfinu. Þegar þetta fólk hefur lokið fyrsta ráðningartímabilinu hjá Sol Meliá, segir það gjarnan að það hafi komist í fjölþjóðlegt og örvandi vinnuumhverfi.
 
 
Þetta var einmitt það sem gerðist hjá þremur ungum manneskjum sem voru í atvinnuleit, en það voru þau Annamaria, Alex og Aurora frá Palermo, sem fóru til Malaga á Spáni til að komast í þjálfun hjá Sol Meliá, full eftirvantingar og vona. Þau voru ekki öll fullkomlega trúuð á að þeim myndi líka þetta nýja líf sem þau voru að hefja, en eftir margra mánaða atvinnuleysi og þreytandi atvinnuleit voru þau samt fegin.
 
 
Annamaria sem er 28 ára, með háskólapróf í erlendum tungumálum og upplýsingafræði sagði: “Ég hafði verið að leita mér að vinnu í átta mánuði eftir að ég lauk seinna háskólaprófi mínu og varð að taka þessu tilboði þegar ég fékk það. Til að byrja með virtist þetta vera einhverskonar frí, en ég hafði aldrei haft tíma til slíks meðan ég var að læra”.
 
 
En svo kom í ljós að þetta var alltöðruvísi. “Þjálfunarnámskeiðið var alveg stórkostlegt” sagði hún. “Það var mjög mikil vinna en samt afar skemmtilegt, við lékum okkur eins og krakkar allan daginn”. Eftir námskeiðið fór hún að vinna sem skemmtikraftur á Fuerteventura sem er ein af Kanaríeyjunum. Þegar hún hafði tíma vann hún í gestamóttökunni til að læra allt sem máli skipti í því starfi – sem var einmitt starfið sem hún stefndi á.
 
 
En svo gerðist það allt í einu, nokkrum mánuðum seinna, að starfsmaður í móttökunni hætti og Annamaria tók við. Frá þeim degi hefur hún starfað í aðalmóttökunni. Henni líkar starfið afar vel, enda er það stökkpallur til að komast í stjórnunarstörf. Hún er mjög þakklát EURES ráðgjöfunum í Palermo sem höfðu talið hana á að fara í umsækjendaval nokkrum mánuðum fyrr, og það þótt hún hafi verið lasin þann dag. “Ef þú ferð ekki”, sagði fólkið við hana, “missir þú kannski af góðu tækifæri”. Og það hefði hún svo sannarlega gert.
 
 
Alex, aftur á móti, hafði einfaldlega þörf á að breyta til og nú vinnur hann sem skemmtikraftur í Fuerteventura. “Það er óskaplega gaman að vera skemmtikraftur; ég hefði aldrei fengið þessa vinnu ef ég hefði ekki komið við hjá EURES!” segir hann. Hann leggur einnig áherslu á sína persónulegu reynslu. “Við það að ferðast og starfa í öðru landi hef ég kynnst öðruvísi menningu og sjóndeildarhringinn hefur stækkað. Ef maður ætlar að komast eitthvað áfram þarf maður að vinna og kynnast nýjum hlutum. EURES ráðgjafarnir hjálpa ungu fólki við þetta hvorttveggja”, bætir hann við.
 
 
Aurora er einnig afar ánægð með þjónustuna hjá EURES og vinnuumhverfið sem hún fann í starfi sínu hjá hótelkeðjunni. “Sol Meliá er mjög traust fyrirtæki, allt er vel skipulagt og mikil áhersla lögð á einstök atriði. Það er séð um okkur eins og við séum ein fjölskylda”, segir hún. Henni líður vel á Menorca sem er ein af Baleareyjunum. Þar starfar hún sem skemmtikraftur og hún hefur náð sínu marki: “Ég vildi bara komast til útlanda og EURES hjálpaði mér við að láta drauminn rætast”, segir hún.
 
 
Massimo, þriðji sikileyingurinn okkar, fór frá Palermo til að bæta sig í frönsku svo að hann hefði betri starfsmöguleika á Ítalíu. Hann getur þakkað EURES fyrir vinnuna sem hann fékk í söludeild Euro Disney í París, en það er fyrirtæki sem varla þarf að kynna. “Starfsreynsla hjá Euro Disney er mjög eftirsótt og sá sem hefur hana á auðvelt með að komast að hjá öðrum stórum fyrirtækjum í Frakklandi. Það er góður aðgöngumiði sem getur opnað ýmsar dyr. Ég réð mig bara til fjögurra mánaða, en það reyndist besta tækifæri sem ég hef fengið hingað til á starfsferli mínum”, segir hann.
 
 
Massimo byrjað við almenn sölustörf en eftir örfáa mánuði hafði hann unnið sig upp eftir öllum metorðastiganum í sinni deild og var orðinn birgðastjóri. Þá gerðist það, næstum ári síðar, að honum var boðin vinna hjá Club Med, stærsta fyrirtæki Frakklands í rekstri sumardvalarstaða, baðstranda o.fl., þar sem hann getur nú stefnt að frekari starfsframa.
 
 
Vegna þess stuðnings sem EURES á Sikiley veitir ungu fólki, hafa margir sem lengi hafa verið atvinnulausir fengið margskonar vinnutilboð. Sumir, eins og Massimo, hafa komist í góðar stöður sem samsvara væntingum þeirra og munu veita þeim tækifæri til enn frekari frama.

« Til baka