Fréttir á vefsíðunni


Nordic Oil ræður til sín verkfræðinga frá Suður-Evrópu.

Uppgangurinn í olíuleitariðnaði á heimsvísu og orðstír norskra fyrirtækja á þessu sviði hefur leitt til vaxandi manneklu meðal sérfræðinga á Norðurlöndunum. Noregur þarf að ráða til starfa 10.000 velmenntaða verkfræðinga á næstu fimm árum og menntunarkerfi landsins getur eitt og sér ekki séð fyrir svo miklum fjölda sérfræðinga. Vegna þessa hafa norskir atvinnurekendur ráðið til sín mjög hæfa starfskrafta frá nærliggjandi löndum á síðastliðnum árum. Hins vegar hefur það reynst æ erfiðara að reiða sig á þessa hefðbundnu leið til að ráða faglærða starfskrafta í vinnu og EES-Vinnumiðlun í Noregi hefur ákveðið að leita eftir starfsmönnum á öðrum svæðum í Evrópu. Þetta var meðal annars upphafið að velheppnuðu samstarfi þeirra við portúgalska starfsfélaga sína.
 
EES-Vinnumiðlun í Portúgal hefur notast við allskyns upplýsingamiðla til að kynna atvinnutækifæri í Noregi (Internetið, SMS, og auglýsingar í fjölmiðlum á landsvísu). Sérstök áhersla hefur verið lögð á að ráða fólk til starfa frá háskólunum. Þó nokkrir kynningarfundir voru skipulagðir af EES-Vinnumiðlun í Noregi í samstarfi við Félag Verkfræðinga í Portúgal og tækni- og verkfræðingaskóla í Lissabon og Porto. Þar að auki, hefur EES-Vinnumiðlun í Noregi nýlega skipulagt heimsóknir til norskra atvinnurekenda og félag atvinnurekenda í Portúgal. Í kjölfarið voru 17 portúgalskir verkfræðingar ráðnir til starfa fyrir nokkur fyrirtæki sem eru staðsett í Suður-Noregi. 
 
Luis Mouthinho, 23 ára gamall sérfræðingur, er einn þeirra portúgala sem voru nýlega ráðnir og hann hefur starfað og búið í Noregi síðan um miðjan apríl 2007.
 
Þegar Luis lauk háskólanámi sínu árið 2001 ákvað hann að fagna því með því að ferðast um Evrópu með Raildude. „Ég var gjörsamlega í skýjunum út af þessari reynslu“, sagði Luis sem hélt þessu evrópsku ævintýri lifandi sem Erasmus skiptinemi í Þýskalandi, þar sem hann lauk gráðu í verkfræði. „Ég uppgötvaði að sú reynsla sem er hvað mest gefandi á ævinni er að hleypa heimdraganum, hitta fólk frá öllum heimshornum, og kynnast öðrum menningarheimum og mismunandi hugsunarhætti.“
 

Eftir útskrift fékk Luis samstundis starf í Portúgal en draumur hans var engu að síður að flytja aftur út til útlanda. Þegar hann sá í fyrrum háskóla sínum auglýsta stöðu fyrir verkfræðing hjá EES-Vinnumiðlun hafði hann undir eins samband við Luisa Martins, portúgalskan ráðgjafa hjá EES-Vinnumiðlun. „Ég útskýrði fyrir honum að ég óskaði þess að geta unnið sem verkfræðingur, þar sem ég gæti sameinað það að starfa í skapandi umhverfi og átt heima með alþjóðlegum hópi“, sagði ungi maðurinn. „Hvað ráðninguna varðar, þá verð ég að segja að þeir hjá EES-Vinnumiðlun unnu sína vinnu frábærlega vel.“ Allt ferlið var mjög vel skipulagt, einfalt og hraðvirkt. Hamingjuóskir til allra þeirra sem gerðu þetta mögulegt.“
 
Þar af leiðandi, eftir nokkra mánuði og tvö viðtöl, var Luis boðinn vinnusamningur í Stavanger sem verkfræðingur við hönnun stálvirkis hjá National Oilwell í Noregi, fyrirtæki sem einkum fæst við hönnun, framleiðslu og sölu á tækjabúnaði og einingum fyrir gas- og olíuborun sem og framleiðslu. „Ein af megin ástæðunum fyrir því að ég flutti til Noregs var þetta einstaka tækifæri sem fólst í því að vinna hjá leiðandi alþjóðlegu fyrirtæki á sviði verkfræðinnar. Auk þess hef ég ánægju af því að vinna með fólki frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Rússlandi og Ungverjalandi. Þessi blanda ólíkra þjóðarbrota skapar einstaka reynslu og mjög sérstakt starfsumhverfi. Mismunandi sjónarhorn okkar og ólíkar leiðir til að nálgast verkefnin leiða alltaf til betri verkfræðilegra lausna.
 
Enda þótt Luis viti ekki hvað framtíðin muni bera í skauti sér, þá kann hann vel við að búa í Noregi og vill kynnast betur heimamönnum og menningu þeirra. „Ætli ég mun ekki staldra við hér í nokkur ár til viðbótar“, segir hann.
 
EES-Vinnumiðlun fær statt og stöðugt mjög jákvæð viðbrögð frá norskum atvinnurekendum og portúgölskum verkfræðingum. Og fljótlega munu fleiri faglærðir starfsmenn frá Portúgal fylkja liði með starfsfélögum sínum í Noregi til að öðlast nýja lífsreynslu.

« Til baka