Fréttir á vefsíðunni


Vinnuskipti ungs fólks milli fjallahéraða og úteyja

Eitt af brýnustu verkefnum nútímans er að greiða ungu fólki leið inn á vinnumarkaðinn. Jeunes Emplois Mobilité (JEM), sem er tenglanet vinnumiðlunarskrifstofa í héraðinu Rhône-Alpes, í suðausturhluta Frakklands, hefur ákveðið að reyna nýja aðferð sem er í því fólgin að beita frjálsri för til að efla fagþekkingu ungs fólks.

Europe Top Depart er starfsmenntaprógramm sem skipulagt er af JEM en er haldið úti af Leonardo da Vinci áætlun Evrópusambandsins. Innan þessa ramma hóf JEM á árinu 2004 samvinnu við Kentro Eppagelmatikis Anaptixis (KEA), sem er starfsmenntamiðstöð á eyjunnu Krít. Upphaflega var þannig gengið frá hnútunum að tíu ungir menn og konur frá Rhône-Alpes svæðinu gátu lokið þriggja mánaða starfsþálfun í skrifstofum KEA á Krít sumarið 2005. Þessi fyrsta tilraun heppnaðist fullkomlega þótt umhverfið væri alveg nýtt og verkefnin öðruvísi en unga fólkið hafði átt að venjast. Það varð að laga sig að alveg nýju og framandi félagslegu og menningarlegu umhverfi og takast á við ókunnugt tungumál – og þetta allt tókst unga fólkinu með hinum mestu ágætum

Mikil nákvæmni var viðhöfð við val þeirra tíu sem fengu að fara. Fyrst fór fram forval hjá þeim sem stóðu að þessu í Frakklandi og fulltrúi KEA kom frá Krít til að vera með í endanlegu vali. Gesturinn fékk einnig að kynnast hinum fjölmörgum öðrum aðgerðum JEM til að aðstoða ungt fólk á leið inn á vinnumarkaðinn.

Með alla þessa reynslu í farteskinu ákváðu hinir frönsku og grísku samstarfsaðilar að halda áfram að vinna saman. Söðugt eru í gangi skipti á fólki sem starfar í ferðaiðnaði á vissum árstímum, og meðal jákvæðra aukaverkana má nefna að ferðaskrifstofur njóta góðs af öllu þessu þegar starfsmannaeklan er mest. Aðalmarkmiðið er hins vegar að gefa ungu fólki færi á að afla sér reynslu í alþjóðlegu vinnuumhverfi, svo það geti lært meira í sínum faggreinum og bætt málakunnáttuna.

Þetta átak verkar að sjálfsögðu ekki bara á annan veginn. Í desember 2005 fékk ungur matsveinn frá Krít vinnu í gistihúsi á Rhône-Alpes svæðinu í samtals þrjá og hálfan mánuð. Þeir sem standa að samstarfinu Frakklandsmegin skipulögðu allt í tengslum við dvöl hans, þeir útveguðu allar upplýsingar í sambandi við yfirvöld og lagaleg málefni, sáu um allt í sambandi við ráðninguna og veittu bæði unga manninum og vinnuveitendum hans alla aðstoð sem þurfti. Vegna þess að Krítverjinn ungi var mjög áhugasamur og stuðningur gistihússeigendanna mikill og góður, varð árangurinn alveg frábær.

Annar hópur ungra frakka fór til Krítar sumarið 2006. Tveir í hópnum höfðu áður tekið þátt í frjálsrar farar prógramminu Europe Top Depart, sem nær einnig til Spánar og Írlands, auk Krítar. Þeir voru því öllum hnútum kunnugir og fengu strax vinnu við að þjóna ferðamönnum á Krít. KEA sá, eins og áður, um allt skipulag á staðnum, hjálpaði við að finna atvinnu, útvegaði húsnæði og greiddi úr ýmsu í sambandi við yfirvöld og lagaleg málefni

Þetta fransk-gríska frumkvæði er að öllum líkindum vísir að fjölþættum ungmennaskiptum og eflingu frjálsrar farar verkafólks til staða þar sem vantar fólk á ákveðnum árstímum. Vinnumarkaður Evrópu er gríðarstór og möguleikarnir innan hans ákaflega fjölbreyttir, eins og þetta dæmi sýnir.

« Til baka