Fréttir á vefsíðunni


Tímabundin atvinna – hvað vinnst og hvað tapast

Tímabundin atvinna verður sífellt fyrirferðarmeiri á evrópskum vinnumarkaði. Heildarfjöldi þeirra sem þannig störf stunda svo og hlutfall þeirra meðal vinnandi fólks stækkar og vex í flestum ESB löndum við það að nýrra tilhneiginga tekur að gæta í auknum mæli í þeim hluta atvinnulífsins þar sem tímabundin atvinna tíðkast. Þessa aukningu ber að skoða í tengslum við mikið atvinnuleysi og skort á menntuðu starfsfólki í Evrópu, en það hvorttveggja kallar á meiri sveigjanleika og nýjar útfærslur á ráðningum og störfum.

Vandamál og úrlausnarefni í tengslum við tímabundna ráðningu var viðfangsefni alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var í Luxemburg í nóvember síðastliðnum. Á ráðstefnuna, sem skipulögð var af EURES Luxemburg, komu fulltrúar margra hagsmunaaðila frá opinberum vinnumiðlunarskrifstofum, einkareknum miðlunum fyrir tímabundna atvinnu, stéttarfélögum, vinnuveitendum og háskólasamfélaginu til að ræða hinar nýju hliðar tímabundinnar atvinnu.

Þótt tímabundin atvinna verði sífellt fyrirferðarmeiri á vinnumarkaði og sömuleiðis félagslegar og efnahagslegar afleiðingar hennar, er hún iðulega vanmetin. Margskonar rannsóknir hafa sýnt að skammtímaráðningar liðka fyrir þróuninni á vinnumarkaðnum í flestum atriðum – skiptingum frá einu starfi til annars, umskiptum frá atvinnuleysi til starfa, þátttöku námsmanna í atvinnulífinu og mörgu fleiru. Tímabundin atvinna veitir ungu fólki tækifæri til að afla sér reynslu og kemur í veg fyrir að þeir sem ekki hafa neitt fast starf lendi í vítahring atvinnuleysisins. Samkvæmt könnun sem Belgíuútibú skammtímavinnumiðlunarinnar Randstad lét gera, verða aðeins um 10% þeirra sem komast í tímabundin störf atvinnulausir eftir það. Reyndin er sú að fleiri og fleiri fyrirtæki ráða til sín fólk til skamms tíma til að bregðast við mikilli samkeppni, og njóta þannig góðs af þeim sveigjanleika sem þetta fyrirkomulag býður upp á. Fjölgun lausráðinna er að miklu leyti til komin vegna breyttra þarfa vinnuveitenda.

Sumsstaðar í Evrópu er fólk í skammtímastörfum áberandi meðal þeirra sem fara yfir landamæri vegna vinnu sinnar. Sem dæmi má nefna að í Luxemburg er þetta fólk gríðarlega stór hluti þeirra sem þannig er ástatt um. Það er búsett í grannlöndunum en kýs að vinna í Luxemburg vegna þess að launin eru þar nokkru hærri og félagslegt öryggi meira. Heimamenn eru ekki nema um 20% þeirra sem eru í skammtímastörfum því 80% þeirra koma frá grannlöndunum. Það er eftirtektarvert að meðal þess fólks sem sækir vinnu til Luxemburg eru helmingi fleiri í skammtímastörfum en hinum. Hins vegar þekkist það líka að borgarar í Luxemburg búsetji sig handan landamæranna en haldi áfram að starfa á sínum gömlu heimaslóðum. Sumir flytja t.d. til Frakklands en halda störfum sínum í Luxemburg. Með því að sækja vinnu til heimalandsins fá þeir há laun en spara jafnframt í húsaleigukostnaði og daglegum útgjöldum. Annað dæmi um þessa auknu “alþjóðavæðingu” vinnumarkaðarins er hlutverk skammtímaráðninga í sambandi við afleysingastörf: Belgískur verkamaður sem skráður er hjá skammtímvinnumiðlun í Luxemburg er sendur til starfa í Þýskalandi.

Þótt skammtímastörf verði stöðugt fyrirferðarmeiri, hafa mörg Evrópulönd enn ófullnægjandi eða ógreinileg ákvæði um ráðningar og samningskjör á þessu sviði. Ennfremur er ennþá verulegt misræmi í löggjöf landanna. Ef við skoðum t.d. hver telst hámarkstímalengd skammtímaráðninga samkvæmt reglugerðum kemur í ljós að munurinn er stór: Í Hollandi eru mörkin við þrjú ár en í Belgíu eftir 15 daga. Hins vegar eru engin ákvæði um það hvað telst tímabundinn starfssamningur í Bretlandi. Þess vegna eru margir þeirra sem málið varðar á þeirri skoðun að brýn þörf sé á sameiginlegri löggjöf um þessi mál í ESB löndunum.

Skammtímaráðningar eru sérstakt fyrirbrigði sem þrír aðilar þurfa að koma að þegar samið er um kjörin, þ.e. starfsmaðurinn sjálfur, vinnuveitandinn og vinnumiðlunin. Ástæður þess að menn taka að sér svona störf eru ótalmargar. Það getur verið reynsluleysi eða kunnáttuleysi, jafnvel nýjungagirni eða þörf á að skipta oft um vinnuumhverfi. Þrátt fyrir suma ókosti skammtímastarfa, eins og t.d. öryggisleysi, ótrygga afkoma og ósamfelldan aðgang að almannatryggingum, vilja sumir heldur skammtímafyrirkomulag á ráðningum sínum, jafnvel þótt þær séu til langs tíma. Þannig er til komið hið umdeilda hugtak “langtíma” skammmtímaráðning þar sem menn eru skammmtímaráðnir til allt að tíu ára.

Vegna sérkenna þessarar tegundar atvinnu er þörf á að fram fari sanngjarnt og skynsamlegt mat á því sem mælir með henni eða móti. Til að koma í veg fyrir að hún þróist yfir í það að vera vinnumarkaður “þeirra sem verða afgangs” verður að finna rétta hlutfallið milli kostanna sem fylgja sveigjanleikanum og ókostanna sem felast í öryggisleysinu.

« Til baka